1.1.10

Fairy pizza

Ég tók mig til og bjó til fyrsta pizzudeig ársins. Það lyfti sér vel. Pizzusósuna gerði ég úr hökkuðum niðursoðnum tómötum sem ég setti út í hvítlauk, oregano, pipar og eitthvað fleira. Setti líka slettu af olíu sem var í sultukrukku, krukkan sú var hluti af viðleguútbúnaði mínum síðan í útilegum sumarsins. Í kjölfar bankahrunsins tók ég upp nýjan lífsstíl sem einkennist af aðhaldi, sparnaði og almennri hófsemd og dyggðugu líferni. Eðlilegur hluti slíks lífsstíls er að nýta matarolíuslettu sem finnst óvænt í sultukrukku.

Pizzan kom heit og girnileg úr ofninum . Fyrsti bitinn fannst mér ekki góður. Þegar ég tók þann næsta hugsaði ég um það hvort það gæti verið sápubragð sem ég fyndi. Ekki dugði sú hugsun til að stöðva mig, þriðji bitinn var tekinn en þá rann það upp fyrir mér að sápubragðið var engin ímyndun. Það rifjaðist upp að ég hafði ekki aðeins sett matarolíu í krukku fyrir útileguna, heldur hafði ég líka sett uppþvottalög í aðra krukku. Sá uppþvottalögur var gulur alveg eins og Barilla ólífuolían. Alveg merkilegt hvað matarolía og gulur uppþottalögur geta verið svipuð ásýndar.

Þannig atvikaðist það að mér tókst að fullfremja bakstur á pizzu með uppþvottalegi og borðaði hana síðan. Ég er með sápubragð í munninum og það fer ekki þó ég hafi reynt ýmislegt til að skipta því út fyrir önnur brögð.

Þann lærdóm má draga af sögunni að grænn uppþvottalögur sé heppilegri fyrir hrakfallahúsmæður.

22.11.09

Rúnutal

Langamma mín í beinan kvenlegg hét Guðrún. Systir hennar hét líka Guðrún. Mamma þeirra hét Guðrún. Tengdamóðir hennar hét Guðrún. Báðar ömmur hennar hétu Guðrún. Ein af af langömmum hennar hét Guðrún. Þegar maðurinn hennar eignaðist barn framhjá henni, var barnið skírt Guðrún.Langamma eignaðist tvær dætur, tók hún þá djörfu ákvörðun að láta hvoruga heita Guðrún en önnur var reyndar látin heita Eyrún og var amma mín. Ég heiti nafninu hennar og það gerir hún Eyrún frænka mín líka. Mamma heitir auðvitað Guðrún eftir ömmu sinni og dóttir hennar systur minnar heitir Guðrún eftir henni.Ef ég hefði eignast dóttur hefði hún auðvitað verið látin heita Guðrún. Ég elska þetta nafn.

Þegar presturinn spyr: "Hvað á barnið að heita", (eða "hvað heitir barnið" til að leggja rétthugsandi áherslu á að verið sé að taka barnið í söfnuðinn en ekki bara gefa því nafn), þá setja viðstaddir upp pókerandlitið, enginn vill láta skelfinguna leka af sér þegar nýjasta skrúðnefnið er sagt upphátt.

Þetta var sagan af nafnahefðinni í kvenleggnum, það eru fleiri leggir og fleiri svona sögur. Mannanafnanefnd hefur ekki þurft að funda út af nafngiftum í minni fjölskyldu.

18.10.09

Tær í kremju


Ekki gat ég stillt mig um að smella á fyrirsögnina Naomi Cambell á bikiní - myndir. Fréttin er sú að Naomi sé enn í "feyknaformi" en blaðamaður virðist ekki hafa veitt því athygli sem er mun meiri frétt.

Fóturinn á henni hefur tekið á sig mynd skófatnaðar sem miðast við að kvenfótur sé með eina langa miðtá, en tærnar styttist og minnki eftir því sem utar dregur. Konan hefur verið gagnrýnd fyrir að vera stygg í skapi og jafnvel ofbeldishneigð, en fréttir af því eru komnar í nýtt samhengi. Hún hlýtur að finna til í hverju skrefi.


4.10.09

Uppskrift

Tregða mín til að henda hlutum eða losa mig við þá til annarra eigenda á sér margar birtingarmyndir. Ég lærði það ung að mikilvægt væri öllum að eiga gott hljómplötusafn. Sérstaklega var það mikilvægt fyrir unga menn og hélst í hendur við mikilvægi þess að eiga góðar græjur. Metnaður minn í þessum efnum var lítill, sem betur fer. Allar mínar græjur hafa verið vondar og hljómplötur keypti ég stöku sinnum af tilviljun. Núna á ég ekki það sem þarf til að spila hljómplötur en ég get hvorki selt þær, gefið, hent né neitt annað. Þær bara sitja í sínum kassa í geymslunni og bíða eilífðarinnar.

Fljótlegt reyndist að framkvæma uppskrift á hljómplötusafni mínu. Ef einhver sýnir áhuga á að eignast einhverja þeirra, geri ég ráð fyrir að mér muni þykja hún enn eigulegri fyrir vikið.

Hvít jól – Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason (þetta er lítil plata), Hotter than July – Stevie Wonder, Pyramid – The Alan Parsons Project, Jack Magnet – Jakob Magnússon, In The Court of The Crimson King – King Crimson, Double Fantasy – John Lennon og Yoko Ono, Walk on The Wild Side - The best of Lou Reed – Lou Reed, Peter Tschaikowski - Die Jahreszeiten - Auswahl – Swjatoslaw Richter, Og augun opnast – Hilmar Oddsson, Eve – The Alan Parsons Project, Master of Reality – Black Sabbath, Tender Prey – Nick Cave and The Bad Seeds, Countdown to Ecstasy – Steely Dan, Bounced Checks – Tom Waits, Arien – Maria Callas, Midt om Natten – Kim Larsen, Kaya – Bob Marley and The Wailers, Never for Ever – Kate Bush, Absolutely Live – The Doors, The Best of Bette – Bette Midler, 77 – Talking Heads, 461 Ocean Bouleward – Eric Clapton, Starsound Collection – Janis Joplin, Body and Soul – Joe Jackson, Stella – Yello, Eye in The Sky – The Alan Parsons Project, The Doors –The Doors, Blind Faith – Blind Faith, Bísar í banastuði – Kamarorghestar.

Mér finnst endilega eins og ég hafi einhverntíman átt plötur með Supertramp og ELO, en sennilega eru þær týndar eða í láni.

15.8.09

Innköllun

Þegar maður ræður sig til vinnu er þess vænst að maður mæti. Veikindi eða önnur forföll þarf að tilkynna yfirmanni. Úti í hinum harða heimi leiða forföll almennt ekki til þess að varamaður vinni vinnuna, hún lendir á samstarfsmönnum eða einfaldlega bíður.

Í tilefni ágreinings innan Borgarahreyfingarinnar er því beint til þingmanns að "kalla inn varaþingmann sinn". Þingmaðurinn segist ekki ætla að gera það. Fjölmiðlar færa fréttir af því hverjir vilja að þingmaðurinn "kalli inn varaþingmann sinn" og hverjir vilja það látið ógert.

Samkvæmt 53. gr. laga um þingsköp er þetta aðeins öðruvísi hugsað:
Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.
Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið.Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað.Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
Borgarahreyfingin virðist óvart hafa ýtt á rauða hnappinn "self destruct".

11.7.09

Staup


Áhugi minn á jarðargróðri er ekki takmarkaður við blóm, en því miður sækist mér illa að læra nöfn á mosum, sveppum, fléttum og þvílíku. Svona jurtir, ef jurtir má kalla, eru oft einstaklega listrænar í útliti og hljóta að veita hönnuðum innblástur. Þetta minnir aðeins á staup sem kona með rauðan varalit hefur drukkið úr.

Þetta fann hún Ásý frænka mín um daginn og spurningin er hvort einhver glöggur lesandi ber kennsl á gripina. Ætli þetta sé ekki svona einn og hálfur cm á hæð.

6.7.09

Tapað - fundið

Allar fréttir af fundnum fornleifum vekja áhuga minn, enda langaði mig til að verða fornleifafræðingur þegar ég var krakki. Sú hugmynd var ekki alveg úr tengslum við líf mitt, því afi minn safnaði gömlum munum og ég var og er afskaplega stolt af safninu hans sem ennþá er hægt að skoða í Gröf.

Núna sá ég á frétt um að fyrrverandi tilvonandi kollegar mínir hafi fundið næstum þúsund ára gamlan snældusnúð í jörðu í Reykjavík. "Véborg á mig" segja rúnirnar á honum. Enginn kvenmaður heitir Véborg á Íslandi, né finnst nafnið á skrá Mannanafnanefndar yfir leyfð stúlkunöfn. Engin Véborg finnst í Íslendingabók.

Wikipedia segir af einni Véborgu. Hún var ein þriggja skjaldmeyja sem fóru fyrir liði 300 slíkra í her Haraldar hilditannar í gríðarlegum bardaga við Brávelli í Svíþjóð í kringum árið 750 eftir því sem sagt er. Því er logið að 200 000 manns hafi tekið þátt í bardaganum. Véborg féll í orrustunni, fyrir Þorkeli hinum þrjóska og er frá því greint að orðaskak hafi fylgt vopnaskaki þeirra.

Véborg þessi hefur því tæpast átt snúðinn sem er frá 10. eða 11. öld, en eigandi hans gæti alveg hafa verið látinn heita eftir þessari frægu kvenhetju. Það er svo ráðgáta afhverju notkun á þessu prýðilega nafni hefur lagst af, fundur snúðsins verður vonandi til þess að nýjar Véborgir vaxi úr grasi. Ekki veitir okkur af kjaftforum skjaldmeyjum.